Fréttir


Uppfærð túlkun Fjármálaeftirlitsins vegna markaðssetningar, dreifingar og sölu á tvíundar valréttum og mismunasamningum

28.8.2018

Fjármálaeftirlitið birti  hinn 5. júlí síðastliðinn túlkun um markaðssetningu, dreifingu og sölu á tvíundar valréttum og mismunasamningum. Í túlkuninni var vísað til ráðstöfunar Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA) frá 27. mars 2018. ESMA hefur nú tekið ákvörðun um að framlengja gildistíma ráðstöfunar stofnunarinnar, en samhliða því ákveðið að undanskilja tilteknar tegundir tvíundar valrétta frá banni stofnunarinnar. Nánari upplýsingar um ákvörðun ESMA er að finna hér.

Ráðstöfun ESMA felur í sér annars vegar bann við markaðssetningu, dreifingu og sölu á tvíundar valréttum til almennra fjárfesta að undanskildum tilteknum tvíundar valréttum og hins vegar skorður á markaðssetningu, dreifingu og sölu á mismunasamningum til almennra fjárfesta. Skorður vegna mismunasamninga felast í hámarks skuldsetningu, reglum um lokun á stöðum ef skuldsetning viðskiptareiknings fer yfir viðmið, vernd við því að viðskiptareikningur fari í neikvæða stöðu, banni við hvatagreiðslum í tengslum við sölu og því að fyrirtæki veiti almennum fjárfestum staðlaðar aðvaranir.

Fjármálaeftirlitið ítrekar að markaðssetning, dreifing og sala á tvíundar valréttum (öðrum en þeim sem falla undir undanþágu frá banninu) og mismunasamningum sem ráðstöfun Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar (ESMA) frá 27. mars 2018 nær yfir, sem endurnýjuð var hinn 24. ágúst 2018, er að mati Fjármálaeftirlitsins andstæð eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum og venjum í verðbréfaviðskiptum skv. 5. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.  Ráðstöfun ESMA, sem byggir á heimildum í 40. gr. reglugerðar ESB nr. 600/2014 (MiFIR) sem hefur enn ekki verið innleidd á Íslandi, var gerð í ljósi þess að umræddir fjármálagerningar eru áhættusamir, hafa hátt flækjustig og hafa orðið til þess að fjárfestar hafa tapað umtalsverðum fjármunum.

Nánari upplýsingar um ráðstöfun ESMA má nálgast á eftirfarandi slóð: https://www.esma.europa.eu/press-news/esma-news/esma-agrees-prohibit-binary-options-and-restrict-cfds-protect-retail-investors.

Nálgast má spurningar og svör um ráðstöfun ESMA á ensku á eftirfarandi slóð: https://www.esma.europa.eu/sites/default/files/library/esma71-98-125_faq_esmas_product_intervention_measures.pdf.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica