Fréttir


Uppfærð viðmið og aðferðafræði vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum

8.2.2019

Fjármálaeftirlitið hefur gefið út uppfærð viðmið og aðferðafræði Fjármálaeftirlitsins vegna könnunar- og matsferlis hjá fjármálafyrirtækjum (SREP). Hin uppfærðu viðmið voru send til umsagnar með umræðuskjali nr. 8/2018 sem er að finna undir umræðuskjöl á vef Fjármálaeftirlitsins.

Markmið viðmiðanna er að skilgreina og kynna aðferðafræði og framkvæmd könnunar- og matsferlis Fjármálaeftirlitsins. Við uppfærslu viðmiðanna voru gerðar minni háttar breytingar á almennum hluta þeirra, sem fjallar almennt um mat Fjármálaeftirlitsins á eiginfjárþörf, og lúta þær einkum að svonefndri stoð II-G og áhrifum aðgerða stjórnenda. Í viðauka 1, sem inniheldur viðmið Fjármálaeftirlitsins fyrir mat á eiginfjárþörf vegna útlána- og samþjöppunaráhættu, eru ný viðmið fyrir mat á annars vegar útlánavexti og hins vegar geirasamþjöppun, auk þess sem gerðar voru þær breytingar á þeim hluta er snýr að vanmati staðalaðferðar að þar er ekki lengur tekið tillit til fasteignalána. Uppfærsla á viðauka 2, sem fjallar um markaðsáhættu og fastvaxtaáhættu, tók fyrst og fremst til viðmiða fyrir veltubókarviðskipti og nýrrar aðferðafræði sem tekur tillit til viðskiptavaktar. Jafnframt voru gerðar minni háttar breytingar á viðauka 3 sem skýrir frá aðferðum stofnunarinnar við ákvörðun um eiginfjárauka.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica