Upplýsingafundur með eftirlitsskyldum aðilum vegna framgangs innleiðingar CRD IV og tengdra gagnaskila
Í morgun stóð Fjármálaeftirlitið fyrir kynningu fyrir eftirlitsskylda aðila á fjármálamarkaði sem skila þurfa gögnum á grundvelli CRD IV og afleiddra tæknistaðla. Mæting var góð þrátt fyrir illviðri og slæma færð, en nokkuð var um afboðanir og er það miður að ekki komust allir sem hug höfðu á kynningu um þetta efni vegna veðurs.
Kynningin í morgun var sú þriðja í röð funda um þetta efni og eru fleiri fyrirhugaðar á næsta ári. Innleiðingin hefur í för með sér upptöku XBRL-gagnaskilastaðals hjá Fjármálaeftirlitinu og nýjar kröfur um gagnaskil, sem innleidd verða í áföngum. Þá munu skilafrestir gagna styttast umtalsvert frá 1. janúar 2016 þegar innleiðingin er að fullu komin til framkvæmda.
Um mitt ár var opnað prófunarumhverfi fyrir prufuskil á XBRL-formi og voru prófanirnar lærdómsríkar fyrir bæði þá eftirlitsskyldu aðila sem tóku þátt og Fjármálaeftirlitið, en þátttaka var valkvæð. Prófanir halda áfram með skylduþátttöku í prufuskilum og er næsti skiladagur 10. janúar 2015. Nánari upplýsingar um breytingarnar er að finna í glærum sem farið var yfir á fundinum.
Þá er áhugasömum jafnframt bent á að senda fyrirspurnir vegna innleiðingar CRD IV á sérstakt netfang Fjármálaeftirlitsins sem sett hefur verið upp til að taka við slíkum fyrirspurnum: crdiv@fme.is