Fréttir


Vegna athugasemda Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til laga um vátryggingastarfsemi

22.10.2015

Fjármálaeftirlitið vísar til umsagnar Viðskiptaráðs Íslands um drög til nýrra laga um vátryggingastarfsemi sem byggja á svokallaðri Solvency II tilskipun (nr. 2009/138/EB) og fjölmiðlaumfjöllunar í kjölfarið um þá umsögn. Nokkrar rangfærslur koma fram í umsögn Viðskiptaráðs sem Fjármálaeftirlitið telur sig knúið til að leiðrétta.

Fullyrt er að í 112. gr. frumvarpsdraganna sé að finna strangari kröfur um lágmarksfjármagn vátryggingafélags en kveðið er á um í 129. gr. tilskipunarinnar. Hér er um misskilning að ræða. Umræddar fjárhæðir eru í samræmi við tilskipun 2014/51/EB („Omnibus II“) sem er breytingatilskipun við Solvency II.  Um er að ræða uppfærslu á fjárhæðum í samræmi við vísitölubreytingar.

Viðskiptaráð gerir jafnframt athugasemdir við 52. gr. frumvarpsdraganna sem kveður á um takmörkun arðgreiðslna. Rétt er að taka fram að í greinargerð hefur athugasemd við þessa grein verið breytt. Til að eigið fé geti talist til gjaldþolsþáttar 1 (þ.e. sé af hæstu gæðum gjaldþols) þarf það að vera að fullu tiltækt til að mæta tapi, hvort sem er vegna áframhaldandi starfsemi eða slitameðferðar, sbr. 91. gr. frumvarpsins. Takmörkun á því að eigendur vátryggingafélags geti tekið eigið fé út í arði með þeim afleiðingum að gjaldþolskröfur verði ekki uppfylltar tryggir þessi gæði. Önnur ríki EES munu setja í lög hjá sér sambærilegt ákvæði.

Fullyrt er að ákvæði í 41. gr. um að Fjármálaeftirlitið geti á hverjum tíma tekið hæfi forstjóra og stjórnarmanna til sérstakrar skoðunar sé ekki í samræmi við 42. gr. tilskipunarinnar.  Í þeirri grein er tilgreint að vátryggingafélög eigi að tryggja að stjórnarmenn og forstjóri uppfylli hæfisskilyrði „at all times“ og af því leiðir að Fjármálaeftirlitið geti tekið það til skoðunar. Er þetta í samræmi við mat á hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna annarra eftirlitsskyldra aðila.

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica