Verðlagning þjónustu fjármálafyrirtækja
Fjármálaeftirlitið vill koma á framfæri að engin sérstök lög eða reglur eru til um gjaldtöku vegna þjónustu fjármálafyrirtækja. Verðlagning þeirra er, líkt og annarra fyrirtækja, frjáls.
Í einstökum lögum og reglum er fjallað um kostnað vegna vöru eða þjónustu. Lúta ákvæðin að því að viðskiptavinur sé upplýstur um allan þann kostnað sem hann getur þurft að bera vegna viðskipta eða þjónustu. Meðal annars má nefna:
- Lög nr. 33/2005 um fjarsölu á fjármálaþjónustu þar sem í 2. mgr. 9. gr. laganna segir að við sölu eða markaðssetningu í síma beri að upplýsa um heildarverð sem neytanda ber að greiða til þjónustuveitanda fyrir fjármálaþjónustuna, að meðtöldum öllum tengdum þóknunum, kostnaði, útgjöldum og sköttum. Ef ekki er unnt að gefa upp nákvæmt verð skal með skýrum hætti gerð grein fyrir grundvelli útreiknings á verði.
- Lög nr. 33/2013 um neytendalán þar sem í 2. mgr. 6. gr. laganna segir að veita skulu upplýsingar á skýran, hnitmiðaðan og áberandi hátt með lýsandi dæmi um:
- útlánsvexti, fasta eða breytilega eða hvort tveggja, ásamt nákvæmri lýsingu á öllum kostnaði sem er innifalinn í heildarlántökukostnaði neytanda,
- heildarfjárhæð láns sem unnt er að veita miðað við gefnar forsendur og, ef við á, lánshlutfall,
- árlega hlutfallstölu kostnaðar,
- ef við á, gildistíma lánssamningsins,
- staðgreiðsluverð vöru eða þjónustu og fjárhæð útborgunar, þegar umrædd vara eða þjónusta er ekki greidd að fullu við afhendingu, og
- ef við á, heildarfjárhæð sem neytandi þarf að greiða og fjárhæð afborgana.
Þá segir í 26. gr. framangreindra laga að árleg hlutfallstala kostnaðar á neytendalánum megi ekki nema meira en 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum.
- Lög nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu þar sem kveðið er á um að veita beri upplýsingar um verð vöru eða þjónustu.
- Reglur nr. 670/2013 um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja en þar segir í 2. tl. 9. gr. að fjármálafyrirtækjum beri í samskiptum sínum við viðskiptamenn að tryggja að allar viðeigandi upplýsingar um vöru og þjónustu, þ.á m. um allan kostnað, séu veittar á skýran og skiljanlegan hátt, áður en viðskipti fara fram og meðan á viðskiptasambandi stendur.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með lögum um fjarsölu fjármálaþjónustu og reglum um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja en Neytendastofa með lögum um neytendalán og lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer skv. lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Þessi lög og reglur kveða ekki á um hver gjaldtakan skuli vera, heldur einungis að viðskiptavinur sé upplýstur um hana. Fjármálaeftirlitið vill því hvetja viðskiptavini fjármálafyrirtækja til að kynna sér vel verðskrár fjármálafyrirtækja sem aðgengilegar eru á heimasíðum þeirra. Þá ættu einnig að koma fram á reikningsyfirlitum upplýsingar um greidd þjónustugjöld á viðkomandi tímabili.
Fréttin var uppfærð 20. febrúar.