Fréttir


Viðvörun frá ESRB um veikleika á húsnæðismarkaði á Íslandi

1.10.2019

Í tengslum við athugun Evrópska kerfisáhætturáðsins (ESRB) á veikleikum á íbúðarhúsnæðismarkaði til meðallangs tíma hefur ráðið sent viðvaranir til fimm Evrópulanda og ábendingar til sex Evrópulanda. Ísland er eitt þeirra landa sem fengið hefur slíka viðvörun, ásamt Frakklandi, Noregi, Tékklandi og Þýskalandi.

Viðvörun ESRB er byggð á ítarlegri skýrslu um veikleika á húsnæðismarkaði í Evrópu. ESRB tekur fram að á Íslandi hafi þegar verið gripið til fjölmargra aðgerða til að milda áhrif veikleika á húsnæðismarkaði á fjármálastöðugleika, t.d. með því að setja reglur um hámark veðsetningarhlutfalls, með útgáfu reglugerðar um greiðslumat og innleiðingu kerfisáhættu- og sveiflujöfnunarauka. Þó telur ESRB að helsti veikleikinn hér á landi, út frá sjónarhóli fjármálastöðugleika, sé mikil skuldsetning heimila samhliða hraðri hækkun íbúðaverðs til meðallangs tíma. Lagt er til að Ísland bregðist við því með því að athuga hvort til greina komi að setja takmörk á hlutfall skulda af tekjum heimila (skuldahlutfall, e. Debt to income). Þó bendir ESRB á að beiting þjóðhagsvarúðartækja sem takmarka skuldahlutföll þurfi að taka mið af stöðunni í efnahagslífinu og fjármálakerfinu hverju sinni með hliðsjón af kostnaði og mögulegum ávinningi.

Íslenskum stjórnvöldum var gefinn kostur á að bregðast við viðvörun ESRB, líkt og stjórnvöldum annarra landa sem fengu sambærilega viðvörun. Svarið var birt samhliða viðvöruninni í stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Í svari fjármála- og efnahagsráðherra er því lýst að til greina komi að skoða beitingu þjóðhagsvarúðartækja sem takmarki skuldahlutföll heimila. Á síðustu árum hafi byggst upp reynsla af beitingu þjóðhagsvarúðartækja og gagnasöfnun hafi farið fram. Eftirlitsaðilar haldi áfram að vakta og greina veikleika á húsnæðismarkaði og áhrif þeirra á fjármálastöðugleika og muni grípa til viðeigandi aðgerða ef þess verður talin þörf að teknu tilliti til efnahagslegra aðstæðna, stöðu á fjármálamarkaði og annarra aðgerða stjórnvalda.

Viðvörun ESRB hefur verið rædd á vettvangi kerfisáhættunefndar og fjármálastöðugleikaráðs. Fjármálaeftirlitið hefur í undirbúningi samráðsferli við viðeigandi aðila varðandi heppileg viðbrögð.

Fréttatilkynning ESRB

Svar fjármálaráðherra

Til baka





Þetta vefsvæði byggir á Eplica