Ábendingar vegna kaupa á vátryggingatengdum fjárfestingaafurðum (Söfnunarlíftryggingum o.fl.)
Fjármálaeftirlitið telur að tilefni sé til að vekja athygli á nokkrum atriðum vegna kaupa á vátryggingatengdum fjárfestingaafurðum, svo sem fjárfestingu í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu í tengslum við söfnunarlíftryggingar. Mikilvægt er að neytendur kynni sér ítarlega þá afurð sem til skoðunar er að kaupa, þar með talinn allan kostnað og þá áhættu sem í kaupunum felst. Sérstaklega skal litið til eftirfarandi atriða áður en viðskipti fara fram:
- Upplýsingar um kostnað. Mikilvægt er að neytendur kynni sér allan kostnað sem fylgir því að kaupa afurðina, þ.m.t. þóknanir sem greiddar eru vegna viðskiptanna. Slíkar upplýsingar eiga að koma skýrt fram bæði í skilmálum og kynningarefni fyrir afurðina.
- Við kaup á vátryggingatengdri fjárfestingaafurð er einnig mikilvægt að neytandi kynni sér þann kostnað sem til fellur, ákveði hann að leysa til sín sparnað áður en áætluðu fjárfestingatímabili lýkur.
- Upplýsingar um áhættu. Viðskiptum með fjárfestingaafurðir fylgir mismikil áhætta og er því mikilvægt að neytendur átti sig á þeirri áhættu sem fylgir þeirri afurð sem þeir hafa í hyggju að fjárfesta í. Dæmi um fjárfestingar sem teljast almennt til áhættusamra afurða eru fjárfestingar í sýndarfé, hvort sem um beina fjárfestingu er að ræða eða óbeina, s.s. í gegnum sjóði um sameiginlega fjárfestingu.
Vátryggingasölumenn vátryggingafélaga og vátryggingamiðlana hafa margvíslegum skyldum að gegna við sölu vátrygginga. Samkvæmt 9. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2004 skulu vátryggingasölumenn við öflun vátrygginga gæta hagsmuna vátryggingartaka, vátryggðra og annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta.
Sé vátrygging keypt í gegnum vátryggingamiðlara er rétt að benda á að samkvæmt 31. gr. laga nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga skal vátryggingamiðlari skilgreina, áður en vátryggingasamningur er gerður og einkum á grundvelli upplýsinga frá væntanlegum vátryggingartaka, kröfur hans og þarfir. Þá skal hann skýra væntanlegum vátryggingartaka frá þeim ástæðum sem liggja að baki ráðleggingum hans. Rökstuðningur skal taka mið af eðli þess vátryggingarsamnings sem mælt er með. Jafnframt kemur fram í 33. gr. sömu laga að veita skuli upplýsingar skriflega eða á öðrum varanlegum miðli, á skýran og nákvæman hátt sem viðtakandanum er skiljanlegur og að þær séu á íslensku eða öðru tungumáli sem báðir aðilar samþykkja. Með öðrum orðum:
- Vátryggingasölumenn eiga að gæta hagsmuna neytenda, hvort sem þeir eru að kaupa vátryggingu eða eru þegar vátryggðir, sem og annarra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta.
- Vátryggingasölumenn eiga að rökstyðja ráðleggingar sínar við val á vátryggingum og á slíkur rökstuðningur að vera:
- Afhentur neytendum skriflega eða á öðrum varanlegum miðli.
- Skýr og skiljanlegur fyrir neytandann.
- Á íslensku eða öðru tungumáli sem báðir aðilar samþykkja.
Fjallað er um sambærilega starfshætti annarra vátryggingasölumanna, þ.á m. þeirra sem starfa fyrir vátryggingafélög, í 7. gr. leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins um starfshætti vátryggingasölumanna, vátryggingamiðlara, vátryggingaumboðsmanna og vátryggingafélaga nr. 3/2007.
Þá er rétt að taka fram að samkvæmt 4. gr. reglna um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti vátryggingafélaga nr. 673/2017 skal vátryggingafélag m.a. tryggja að:
- Viðskiptavini séu veittar allar nauðsynlegar upplýsingar er varða viðskiptasambandið, bæði meðan á sambandinu stendur og eftir að því lýkur.
- Viðeigandi upplýsingar um vöru og þjónustu, þ.á m. um allan kostnað, séu veittar á skýran og skiljanlegan hátt, áður en viðskipti fara fram og meðan á viðskiptasambandinu stendur. Þá skal taka tillit til þarfa einstakra viðskiptavina, t.d. með nánari skýringum ef þörf krefur.
- Upplýsingar um vöru og þjónustu séu hvorki misvísandi né blekkjandi.
- Ráðgjöf sem veitt er taki mið af hagsmunum viðskiptavinar.
Þá vill Fjármálaeftirlitið einnig ítreka viðvörun Evrópsku eftirlitsstofnana vegna sýndarfjár (e. Virtual Currencies) þar sem varað var við þeirri áhættu sem fylgt getur viðskiptum með sýndarfé. Fjármálaeftirlitið gaf einnig út eigin aðvörun í lok janúar sl. þar sem neytendur eru varaðir við að fjárfesta í sýndarfé og hætta þannig fjármunum sem þeir mega ekki við því að tapa nema að mjög vel athuguðu máli.