Tæknistaðall CRD IV um gagnaskil birtur í evrópsku stjórnartíðindunum
Einn af viðamestu tæknistöðlunum sem fylgja CRD IV löggjöfinni hefur verið birtur í evrópsku stjórnartíðindunum sem framkvæmdarreglugerð (ESB) nr. 680/2014. Tæknistaðallinn er því formlega orðinn hluti af löggjöf Evrópusambandsins. Tæknistaðallinn mun hafa í för með sér að skýrslur sem notast er við í gagnaskilum hér á landi verða eftirleiðis á samskiptastaðlinum XBRL. Að auki mun Fjármálaeftirlitið þurfa að taka í notkun ýmsar nýjar skýrslur sem fylgja tæknistaðlinum, þ.m.t. varðandi stórar áhættuskuldbindingar og fjármögnunarhlutfall.
Fjármálaeftirlitið opnaði nýverið fyrir móttöku XBRL gagna í prófunarumhverfi sem lið í að koma skilum á COREP skýrslum á XBRL formi. Unnið verður að því á næstu árum að taka upp COREP og aðrar skýrslur tæknistaðalsins á XBRL formi. Upptaka þeirra mun fara fram í þrepum og samkvæmt áætlun sem birt hefur verið hér. Rétt er að taka fram að eftir að tæknistaðallinn verður hluti af EES-samningnum þarf mögulega að vinna breytingar á áætlun um upptöku einstakra skýrsluforma.
Lokaútgáfa tækistaðalsins í stjórnartíðindum Evrópusambandsins telur 1867 blaðsíður en staðlinum fylgir mikill fjöldi af töflum, viðaukum og skilgreiningum tengdum gagnalíkaninu fyrir XBRL.